Frétt

Lögfesting á greiðsluskyldu launagreiðenda til VIRK frá og með 1. september næstkomandi

Lögfesting á greiðsluskyldu launagreiðenda til VIRK frá og með 1. september næstkomandi

Með lögum sem samþykkt voru á síðasta vorþingi var kveðið á um skyldu launagreiðenda til þess að skila 0,13% af iðgjaldastofni til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs vegna allra starfsmanna sinna. Fram að þessum tíma hefur einungis verið kveðið á um greiðsluskyldu í kjarasamningum en nú nær hún til allra launamanna skv. lögum, þ.m.t. sjálfstæðra atvinnurekenda og þeirra sem ekki eru félagsmenn stéttafélaga.

Launagreiðandi skal standa skil á iðgjaldi vegna VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs með sama hætti og gildir um lífeyrisiðgjöld og greiða samhliða til viðeigandi lífeyrissjóðs. Í samræmi við þessa lagasetningu munu allir starfandi einstaklingar tryggja sér rétt til starfsendurhæfingar og njóta til þess þjónustu VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs. Nánari upplýsingar um þjónustu VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs má finna á heimasíðu VIRK, www.virk.is.

Upplýsingar frá VIRK varðandi lögfestingu á iðgjaldi til launagreiðenda eru í mefylgjandi skjali:

Um er að ræða breytingu á lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og er málsgreinin um iðgjald launagreiðenda til VIRK svohljóðandi:

"Iðgjald launagreiðanda, þ.m.t. þeirra sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs skal vera 0,13% af iðgjaldsstofni skv. 1. mgr. 3. gr. og skal reiknast í fyrsta sinn af iðgjaldsstofni septembermánaðar 2011. Iðgjaldið veitir réttindi til þjónustu VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs. Launagreiðanda skv. 1. málsl. er skylt að standa skil á iðgjaldinu til viðkomandi lífeyrissjóðs með sama hætti og gildir um lífeyrisiðgjald, sbr. 2. mgr. 7. gr. Lífeyrissjóðir ráðstafa iðgjaldinu til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs og skal fara eftir þeim ákvæðum sem almennt gilda í þeim innheimtusamningum sem gerðir hafa verið milli aðila."

Fram til þessa hefur Frjálsi lífeyrissjóðurinn ekki tekið við greiðslu iðgjalds til VIRK, en frá og með 1. september mun sjóðurinn hinsvegar taka við þessum iðgjöldum í samræmi við breytingu á lögum. Rétt er einnig að benda á að það eru iðgjöld vegna september sem mynda í fyrsta sinn andlag til útreiknings á umræddu gjaldi.