Frétt

Nýjar samþykktir Frjálsa lífeyrissjóðsins tóku gildi 1. júlí síðastliðinn

Nýjar samþykktir Frjálsa lífeyrissjóðsins tóku gildi 1. júlí síðastliðinn

Samþykktir Frjálsa lífeyrissjóðsins sem voru samþykktar á ársfundi sjóðsins 13. apríl sl. hafa nú verið staðfestar af fjármálaráðuneytinu. Samþykktirnar tóku gildi þann 1. júlí.

Rétt er að vekja athygli á því að í nýjum samþykktum er að finna viðauka (bls. 13) varðandi ákvörðun stjórnar um breytta aðferð við lækkun réttinda og lífeyris sjóðfélaga skv. gr. 6.5 miðað við það sem ársfundur sjóðsins samþykkti árið 2010: Lífeyrisréttindi áunnin 2010 og fyrr, og lífeyrir sem byggist á réttindum sem aflað var 2010 og fyrr, verða lækkuð um 0,75% mánaðarlega næstu 12 mánuði eftir að gildistaka ákvörðunar hefur hlotið staðfestingu fjármálaráðuneytisins eða þar til jafnvægi næst á milli eigna og áfallinna skuldbindinga sjóðsins, verði það fyrr.

Réttindi sem myndast vegna greiðslu iðgjalda frá og með 1. janúar 2011 og lífeyrisgreiðslur vegna sömu réttinda munu hinsvegar ekki lækka.

Ársfundur Frjálsa lífeyrissjóðsins sem haldinn var 24. júní 2010 samþykkti mánaðarlega lækkun á réttindum sem nam mánaðarlegri hækkun á vísitölu neysluverðs, en sú aðferð hlaut ekki staðfestingu fjármálaráðuneytisins. Því ákvað stjórn sjóðsins nú að fara þá leið sem líst er hér að ofan. Lækkun réttinda er gerð í ljósi halla á tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins. Rétt er að hafa eftirfarandi þætti í huga sem hafa haft áhrif á tryggingafræðilega stöðu sjóðsins:

  • Árin 2006 og 2007 var tryggingafræðilega staðan sterk og greiddi sjóðurinn samtals 2,6 milljarða í bónus í séreign sjóðfélaga með flutningi eigna úr samtryggingarsjóði í séreignasjóð. Eftir bónusgreiðslurnar var áunna staðan nálægt jafnvægi og heildarstaðan jákvæð um 3,8%. Fyrri bónusgreiðslan jafngilti 30,6% hækkun réttinda og seinni bónusgreiðslan 8,9% hækkun réttinda eða samtals 42,2%.
  • Verðbólga frá ársbyrjun 2008 og til loka júní 2011 var samtals 34%, sem jók skuldbindingar um sambærilegt hlutfall, en bæði áunnin réttindi og lífeyrisgreiðslur eru verðtryggðar.
  • Þrátt fyrir að sjóðurinn hafi dregið úr fjárfestingaráhættu árin 2007 og 2008 þá lækkaði hluti eigna sjóðsins í verði við bankahrunið.
  • Gefnar hafa verið út nýjar töflur um lífslíkur sem gera ráð fyrir lengri meðalævi en áður og hækkuðu skuldbindingar sjóðsins við það um 1,55%.

Um síðustu áramót var hlutfall heildareigna á móti heildarskuldbindingum samtryggingarsjóðs (heildarstaða) neikvætt um 6,9% en hlutfall eigna umfram áfallnar skuldbindingar neikvætt um 17,8%. Sjóðurinn er innan lögbundinna marka og ber ekki skylda til að grípa til aðgerða. Það er hinsvegar mat stjórnar sjóðsins að skynsamlegt sé að bregðast við til að leita jafnvægis í tryggingafræðilegri stöðu, en Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur ekki áður lækkað réttindi sjóðfélaga líkt og fjölmargir aðrir lífeyrissjóðir hafa gert árin eftir bankahrunið.